Hvernig Google geymir gögn sem það safnar
Við söfnum gögnum þegar þú notar þjónustu Google. Fjallað er um hvað við söfnum, hvers vegna við söfnum því og hvað þú getur gert til að halda utan um upplýsingar þínar í persónuverdarstefnunni okkar. Þessar reglur um varðveislu gagna skýra hvers vegna við geymum ýmsar upplýsingar og hve lengi við geymum þær.
Sumum gögnum geturðu eytt þegar þú vilt, öðrum gögnum er eytt sjálfkrafa og önnur eru geymd í lengri tíma þegar þess þarf. Þegar þú eyðir gögnum fylgjum við reglum um eyðingu efnis til að tryggja að gögnin þín séu fjarlægð fyllilega og örugglega af þjónum okkar eða einungis geymd á nafnlausu formi. Hvernig Google gerir gögn nafnlaus
Upplýsingum haldið eftir þar til þú fjarlægir þær
Við bjóðum upp á ýmsa þjónustu sem gerir þér kleift að leiðrétta eða eyða gögnum sem geymd eru á Google reikningnum þínum. Þú getur til dæmis:
- Breytt persónuupplýsingum
- Eytt atriðum úr „Mínar aðgerðir“
- Eytt efni eins og myndum og skjölum
- Fjarlægt vöru af Google reikningnum þínum
- Eytt Google reikningnum fyrir fullt og allt
Við geymum þessi gögn á Google reikningnum þínum þar til þú velur að fjarlægja þau. Ef þú notar þjónustu okkar án þess að skrá þig inn á Google reikning bjóðum við þér einnig upp á að eyða tilteknum upplýsingum sem tengjast því hvað þú notar til að fá aðgang að þjónustu okkar, til dæmis tæki, vafra eða forriti.
Gögn sem renna út eftir tiltekinn tíma
Í sumum tilfellum geymum við gögn í fyrirfram ákveðinn tíma í stað þess að bjóða upp á leið til að eyða gögnum. Tímarammar eru ákvarðaðir fyrir hverja gagnategund með hliðsjón af ástæðu fyrir söfnun viðkomandi gagna. Til dæmis kunnum við að geyma upplýsingar um breidd og hæð vafra í allt að 9 mánuði til að geta tryggt að þjónusta okkar birtist rétt í tækjum af mismunandi stærðum og gerðum. Við grípum einnig til aðgerða til að tiltekin gögn séu gerð nafnlaus eða tengd gerviauðkenni innan ákveðinna tímabila. Sem dæmi sjáum við til þess að nafnleysa auglýsingagögn í annálum þjóna með því að fjarlægja hluta IP-tölunnar eftir 9 mánuði og fótsporaupplýsingar eftir 18 mánuði. Við kunnum einnig að varðveita gögn með gerviauðkenni í tiltekinn tíma, svo sem fyrirspurnir sem hafa verið aftengdar Google-reikningum notenda.
Upplýsingar sem eru varðveittar þar til Google reikningnum er eytt
Við geymum sumar upplýsingar á meðan Google-reikningurinn þinn er til ef þær gagnast okkur til að skilja hvernig notendur nota eiginleika og til að bæta þjónustur okkar. Ef þú eyðir til dæmis heimilisfangi sem þú hefur leitað að í Google-kortum kann reikningurinn þinn að geyma upplýsingar um að þú hafir notað leiðarlýsingareiginleikann. Með þessu móti geta Google-kort forðast að sýna þér upplýsingar um hvernig á að nota leiðarlýsingareiginleikann síðar meir.
Upplýsingar sem eru geymdar í lengri tíma í afmörkuðum tilgangi
Stundum þurfum við að geyma tilteknar upplýsingar í lengri tíma í afmörkuðum tilgangi vegna rekstrarlegra krafna eða lagalegra skilyrða. Dæmi: Þegar Google vinnur úr greiðslu fyrir þig eða þú greiðir Google geymum við slíkar upplýsingar í lengri tíma ef þörf er á vegna skatta eða bókhalds. Ástæður þess að við geymum tiltekin gögn í lengri tíma eru meðal annars:
- Til að tryggja öryggi og verjast svikum og misnotkun
- Vegna bókhalds
- Til að fylgja lögum og reglum
- Til að tryggja órofna þjónustu
- Vegna beinna samskipta við Google
Boðið upp á örugga og algjöra eyðingu
Þegar þú eyðir gögnum af Google reikningnum setjum við þegar af stað ferli til að fjarlægja þau úr vörum okkar og kerfum. Fyrsta markmið okkar er að taka gögnin algjörlega úr birtingu og þau verða ekki lengur notuð til að sérsníða notkun þína á Google. Ef þú eyðir til dæmis myndskeiði sem þú hefur skoðað á stjórnborðinu „Mínar aðgerðir“ hættir YouTube þegar í stað að sýna þér framvindu áhorfs þíns á það myndskeið.
Þá setjum við af stað ferli sem er hannað til að eyða gögnunum örugglega og algjörlega úr geymslukerfum okkar. Mikilvægt er að eyðingin sé örugg til að notendur okkar verði ekki fyrir gagnatapi fyrir slysni. Eyðingin þarf að vera algjör til að notendur okkar fái hugarró. Ferlið tekur yfirleitt u.þ.b. 2 mánuði frá því að beðið er um eyðingu. Oft er eins mánaðar endurheimtartímabil innifalið, þar sem gögnum gæti hafa verið eytt fyrir slysni.
Ítarlegt ferli fyrir örugga og algjöra eyðingu hefur verið skilgreint fyrir hvert geymslukerfi sem gögnum er eytt úr. Ferlið getur falið í sér margar umferðir í gegnum kerfið til að tryggja að öllum gögnum hafi verið eytt, eða stutta töf til að bjóða upp á endurheimt ef gögnum er eytt fyrir mistök. Þess vegna getur stundum tekið lengri tíma að eyða gögnum þegar þörf er á meiri tíma til að tryggja örugga og algjöra eyðingu þeirra.
Þjónusta okkar notar einnig dulkóðaða varageymslu sem getur greitt fyrir endurheimt eftir áföll. Gögn geta verið geymd í þessum kerfum í allt að 6 mánuði.
Rétt eins og við aðra gagnaeyðingu geta þættir á borð við reglulegt viðhald, óvæntar raskanir, villur eða bresti í samskiptareglum leitt til tafa á ferlum og tímarömmum sem lýst er í þessari grein. Við höldum úti kerfum sem eru hönnuð til að greina og lagfæra slík vandamál.
Til að tryggja öryggi og verjast svikum og misnotkun
Lýsing
Til að verja þig, annað fólk og Google gagnvart svikum, misnotkun og aðgangi í leyfisleysi.
Kringumstæður
Til dæmis þegar Google grunar að einhver sé að stunda auglýsingasvik.
Vegna bókhalds
Lýsing
Þegar Google er aðili að viðskiptum, til dæmis þegar Google vinnur úr greiðslu frá þér eða þegar þú greiðir Google. Oft þarf að geyma upplýsingar sem þessar í lengri tíma vegna bókhalds, úrlausnar ágreiningsmála og til að fylgja reglum um skatta, skilum til yfirvalda, peningaþvætti og öðrum fjárhagsreglugerðum.
Kringumstæður
Til dæmis þegar þú kaupir forrit í Play Store eða vörur í Google Store.
Til að fylgja lögum og reglum
Lýsing
Til að fylgja viðeigandi lögum og reglum, í tengslum við málsmeðferð eða beiðnir yfirvalda, eða eins og þörf er á til að framfylgja viðeigandi þjónustuskilmálum, þar með talið til að rannsaka hugsanleg brot.
Kringumstæður
Til dæmis ef Google er stefnt fyrir dómstóla.
Til að tryggja órofna þjónustu
Lýsing
Til að tryggja órofna þjónustu fyrir þig og aðra notendur.
Kringumstæður
Dæmi: Þegar þú deilir upplýsingum með öðrum notendum (eins og þegar þú hefur sent tölvupóst til einhvers) er afritum viðtakandans ekki eytt þegar þú eyðir þeim af Google reikningnum þínum.
Vegna beinna samskipta við Google
Lýsing
Ef þú hefur átt í beinum samskiptum við Google í gegnum notendaþjónustu, eyðublað fyrir ábendingar eða villutilkynningu kann Google að geyma skrár yfir slík samskipti innan eðlilegra marka.
Kringumstæður
Til dæmis þegar þú sendir ábendingu í Google forriti á borð við Gmail eða Drive.